Firmino og Sané á leiðinni til Bayern?

Roberto Firmino og Jürgen Klopp eftir einn af mörgum sigurleikjum …
Roberto Firmino og Jürgen Klopp eftir einn af mörgum sigurleikjum Liverpool í vetur. AFP

Þýska knattspyrnufélagið Bayern München er sagt vera að undirbúa tilboð í Roberto Firmino, brasilíska sóknarmanninn hjá Liverpool, og ætli sér jafnframt að krækja í þýska landsliðsmanninn Leroy Sané hjá Manchester City.

Þetta fullyrðir enska blaðið The Sun í dag og segir að Bayern ætli að bjóða Liverpool 75 milljónir punda í hinn 28 ára gamla Firmino sem hefur verið í lykilhlutverki í sóknarleik heims- og Evrópumeistaranna undanfarin ár.

Hans Flick stjóri Bayern er sagður með Firmino efstan á sínum óskalista til að leika við hlið markamaskínunnar Roberto Lewandowski á næsta tímabili. Firmino muni eiga undir högg að sækja hjá Liverpool ef hann verður kyrr því flest bendi til þess að Liverpool muni kaupa Timo Werner af RB Leipzig í sumar.

Sané hefur ekkert leikið með Manchester City í vetur eftir að hafa meiðst alvarlega á hné síðasta sumar og hann hefur lengi verið í sigtinu hjá Bayern.

mbl.is