Mané gæti náð leiknum í Madríd

Sadio Mané í leik gegn Manchester United.
Sadio Mané í leik gegn Manchester United. AFP

Senegalski knattspyrnumaðurinn Sadio Mané hóf æfingar með Liverpool á ný í morgun eftir að hafa tognað aftan í læri í leik gegn Wolves 23. janúar.

Liverpool var í vetrarfríi í síðustu viku en liðið hóf í morgun undirbúning fyrir leikinn gegn Norwich í úrvalsdeildinni á laugardaginn kemur. Jürgen Klopp horfir þó væntanlega frekar til þess að geta teflt Mané fram á þriðjudaginn í næstu viku, en þá fer Liverpool til Madrídar og mætir Atlético í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Mané hefur skorað 11 mörk í 22 leikjum með Liverpool í úrvalsdeildinni í vetur og auk þess tvö mörk í Meistaradeildinni.

James Milner, sem fór meiddur af velli í bikarleik gegn Everton 5. janúar og hefur því verið frá keppni í rúmar fimm vikur, æfði líka með liðinu í morgun, samkvæmt Sky Sports.

mbl.is