Við hengdum haus og gáfumst upp allt of snemma

Bernardo Silva í leik með Manchester City gegn Leicester sem …
Bernardo Silva í leik með Manchester City gegn Leicester sem er í þriðja sæti. AFP

Bernardo Silva, portúgalski kantmaðurinn hjá Manchester City, segir að hann og félagar hans hafi hengt haus og gefist upp í baráttunni um enska meistaratitilinn í í knattspyrnu við Liverpool í síðasta mánuði.

City, meistarar tveggja síðustu ára, hafa gefið verulega eftir í vetur, tapað sex leikjum og gert þrjú jafntefli og eru 22 stigum á eftir Liverpool sem á meistaratitilinn vísan. Silva segir að vendipunkturinn hafi verið í janúar.

„Ég held að það hafi gerst fyrir mánuði, þegar við gáfumst upp í baráttunni, einum of snemma, og þess vegna erum við tuttugu og eitthvað stigum á eftir þeim núna. Þetta áttum við ekki að gera og það var ekki viljandi gert. Þetta var eitthvað sem fór í hausinn á okkur, við vorum allir vonsviknir yfir því að vera komnir tíu til fimmtán stigum á eftir Liverpool og við hengdum haus,“ sagði Silva í viðtali við Sky Sports.

„Þetta hefur verið mjög erfitt því sem lið höfum við vanist á mikla sigurgöngu og á síðasta tímabili unnum við öll mót á Englandi. Þetta er sárt því á hverju tímabili stefnir maður á sigur í úrvalsdeildinni. Það er aðalkeppnin og sú mikilvægasta í augum stuðningsmannanna. Enginn bjóst við því að við yrðum svona langt á eftir Liverpool í janúar og febrúar,“ sagði Silva sem fékk óvænt frí ásamt liðsfélögum sínum þegar leik Manchester City og West Ham var frestað vegna veðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert