Óvenjulegt ákvæði í samningnum hjá Klopp

Jürgen Klopp er gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool.
Jürgen Klopp er gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool. AFP

Jürgen Klopp er samningsbundinn sem knattspyrnustjóri Liverpool til ársins 2024 en hann er með í samningi sínum óvenjulegt ákvæði um hvað gerist þegar dvöl hans hjá félaginu lýkur.

Samkvæmt frétt Independent í dag eru forráðamenn Liverpool skyldugir til að aðstoða Klopp við að setjast að í Þýskalandi á ný þegar hann lýkur störfum á Anfield.

Ákvæðið þykir afar óvenjulegt, enda er vaninn sá að félög rjúfa öll tengsl við knattspyrnustjóra sína þegar þeir láta af störfum. Independent segir að með þessu séu forráðamenn Liverpool fyrst og fremst að láta í ljós þakklæti sitt fyrir framlag hans til félagsins, sem hefur unnið Meistaradeild Evrópu, heimsbikar félagsliða og Stórbikar Evrópu á undanförnum níu mánuðum, ásamt því að vera með níu fingur á fyrsta enska meistaratitlinum í þrjátíu ár.

Independent segir að það eigi síðan eftir að koma í ljós hvort Klopp þurfi á aðstoð að halda og hvort hann muni nýta sér ákvæðið en hann er sagður hafa mikinn áhuga á að taka annaðhvort við þýska landsliðinu eða Bayern München þegar hann yfirgefur Liverpool.

mbl.is