Pirraður og telur að verið sé að ofsækja sig

Jordan Pickford markvörður Everton hefur verið aðalmarkvörður Englands undanfarin tvö …
Jordan Pickford markvörður Everton hefur verið aðalmarkvörður Englands undanfarin tvö ár og á 24 landsleiki að baki. AFP

Frammistaða enska landsliðsmarkvarðarins Jordans Pickfords með Everton í vetur og sérstaklega viðbrögð hans við gagnrýni hafa verið tekin fyrir af knattspyrnusérfræðingum ensku fjölmiðlanna síðustu sólarhringa.

Pickford sendi Gary Neville, sérfræðingi Sky Sports og fyrrverandi landsliðsbakverði Englands, tóninn eftir sigur Everton á Crystal Palace á laugardaginn þar sem Pickford fékk á sig frekar ódýrt mark.

BBC fjallaði ítarlega um Pickford og frammistöðu enskra markvarða í úrvalsdeildinni í gærkvöld og ræddi málin við sérfræðingana og fyrrverandi sóknarmennina Chris Sutton og Ian Wright.

„Pickford hefur ekki leikið nægilega vel. Dean Henderson, Nick Pope og Ben Foster hafa allir verið betri en hann í vetur. Ef þú vilt verða Evrópumeistari þá notarðu þann markvörð sem er með mesta sjálfstraustið, besta markvörðinn. Pickford lék vel á HM en á þessum tímapunkti, þegar hann er borinn saman við hina markverðina, þá er sannleikurinn sá að hann hefur ekki verið eins góður og Henderson og Pope.

Hann er geysilega góður með boltann á tánum en ef hann er óöruggur eða er ekki með sama  sjálfstraust og Henderson, þá hlýturðu sem þjálfari að velja þann markmann sem er í besta forminu, þann sem hefur varið mest og verið stöðugastur. Pickford hefur verið mistækur með félagsliði sínu og Gareth Southgate (landsliðsþjálfari Englands) á við vandamál að etja,“ sagði Sutton.

Dean Henderson markvörður Sheffield United hefur varið hlutfallslega flest skot …
Dean Henderson markvörður Sheffield United hefur varið hlutfallslega flest skot ensku markvarðanna í úrvalsdeildinni í vetur og vakið mikla athygli. AFP

Ian Wright, sem var í þættinum Monday Night Club með Sutton í gærkvöld, tók undir þetta. „Pickford er fyrsti markvörður Englands en ég veit satt best að segja ekki hversu lengi hann verður það. Gagnrýni hefur áhrif á alla og hann fær sinn skammt af henni. En þú verður að sætta þig við það að fólk muni gagnrýna þig og sá sem segir að það skipti ekki máli er ekki mjög sannfærandi. Hann virðist vera reiður og pirraður og telur að verið sé að ofsækja sig, en við viljum bara að hann spili vel. Þú vilt ekki að besta markverðinum þínum líði eins og allir séu á móti honum, þú vilt að hann sé í besta formi lífs síns þegar hann fer á EM,“ sagði Wright.

„Hann verður að láta verkin tala á vellinum, og það hefur hann ekki gert í vetur. Með yfirlýsingum sem hann hefur látið fara frá sér segir hann mér að hann sé ekki öruggur með sjálfan sig. Ef hann nær sér ekki á strik á EM og gerir slæm mistök í úrslitaleiknum mun fólk spyrja hvers vegna hann hafi verið valinn í liðið,“ sagði Chris Sutton.

Nick Pope hefur verið stöðugur í marki Burnley og fengið …
Nick Pope hefur verið stöðugur í marki Burnley og fengið tækifæri í tveimur leikjum með enska landsliðinu síðustu tvö ár. AFP

BBC skoðaði frammistöðu ensku markvarðanna í úrvalsdeildinni í vetur en átta slíkir hafa spilað meira en 10 leiki með liðum sínum á þessu tímabili.

Auk Pickfords eru það Dean Henderson hjá Sheffield United, Ben Foster hjá Watford, Nick Pope hjá Burnley, Aaron Ramsdale hjá Bournemouth, Tom Heaton hjá Aston Villa, Alex McCarthy hjá Southampton og Angus Gunn hjá Southampton.

Þar kemur í ljós að Henderson hefur varið hlutfallslega flest skot en hann er slakastur í að spila boltanum frá sér. Pickford er aðeins í sjötta sæti af þessum átta hvað varin skot varðar en er hins vegar bestur ensku markvarðanna í að spila boltanum á samherja. Það atriði telja sérfræðingarnir að muni vinna með Pickford hvað landsliðið varðar því Gareth Southgate leggi mikla áherslu á að boltanum sé spilað út frá markverði og vörn.

mbl.is