Hatrið er hluti af því að vera landsliðsmaður

Jordan Pickford ver frá Wilfried Zaha hjá Crystal Palace í …
Jordan Pickford ver frá Wilfried Zaha hjá Crystal Palace í leiknum á laugardaginn. AFP

Jordan Pickford, markvörður Everton og enska landsliðsins í knattspyrnu, hefur verið gagnrýndur fyrir markið sem hann fékk á sig í 3:1 sigrinum á Crystal Palace í úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Pickford segir að slík gagnrýni sé hluti af því að vera í enska landsliðinu og gagnrýnin sem hann fái sé oft ósanngjörn. Meðal annars gagnrýndi Gary Neville, sérfræðingur Sky Sports og fyrrverandi varnarmaður Manchester United og enska landsliðsins, Pickford fyrir að hlæja þegar Everton var 3:1 undir í leik gegn Manchester City snemma á tímabilinu.

„Einhverra hluta vegna hata þig allir þegar þú ert landsliðsmaður, það er hluti af því. Fréttamenn og allir vilja gagnrýna ensku landsliðsmennina — sjáið bara Gary Neville — en ég læt þetta ekki hafa nein áhrif á mig,“ sagði Pickford og útskýrði markið sem Christian Benteke skoraði hjá honum á laugardaginn en Belginn skaut úr þröngu færi á milli fóta hans og í netið.

„Ég er búinn að skoða markið og ég var heppinn að slíta ekki krossband í hné, satt best að segja. Fóturinn á mér festist í jörðinni, ég gat ekki hreyft hann og var stálheppinn,“ sagði Jordan Pickford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert