Leggur sig allan fram fyrir bæinn sinn

Sadio Mané var kjörinn besti knattspyrnumaður Afríku í síðasta mánuði …
Sadio Mané var kjörinn besti knattspyrnumaður Afríku í síðasta mánuði og það er mesta viðurkenning sem einstaklingur frá Bambali hefur hlotið. AFP

Senegalski knattspyrnumaðurinn Sadio Mané sem hefur farið á kostum með Liverpool undanfarin misseri segir að sín mesta hvatning sé sá stuðningur sem hann fær úr heimabænum sínum í Senegal.

Mané er frá Bambali, 26 þúsund manna bæ í suðurhluta Senegal, og þar er fylgst gríðarlega vel með hverju hans skrefi, enda er hann frægasti íbúinn í sögu bæjarins — Evrópu- og heimsmeistari félagsliða 2019 með Liverpool og var kjörinn knattspyrnumaður ársins í Afríku.

„Ég get ekki lýst því með nægilega sterkum orðum hve spennt þau eru fyrir velgengni minni. Þau hvetja mig stöðugt áfram. Þegar ég sé þetta og finn, legg ég enn harðar að mér en áður til að gleðja þau. Ánægjan er það eina sem þau fá út úr þessu og mér finnst ég verða að endurgjalda þeim allan þennan stuðning,“ segir Mané í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Mín velgengni þykir mjög sérstök í bænum því þar höfum við oft átt frábæra fótboltamenn en þeir náðu aldrei langt. Þegar ég fór fyrst til Frakklands og spilaði í næstefstu deild var ekki hægt að sjá leikina þar í sjónvarpinu heima. Það var því mikil spenna þegar ég fór til Englands og þau gátu séð mig í sjónvarpinu. Spennan verður meiri eftir því sem ég næ lengra og ég verð því að leggja mig allan fram til að gleðja þau og gera þau stolt,“ segir Mané í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert