Chelsea staðfestir kaupin

Hakim Ziyech í landsleik með Marokkó.
Hakim Ziyech í landsleik með Marokkó. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea staðfesti nú í hádeginu kaup sín á marokkóska kantmanninum Hakim Ziyech frá Ajax í Hollandi.

Hann lýkur tímabilinu með Ajax og verður leikmaður Chelsea frá og með 1. júlí í sumar. Talið er að félagið greiði tæpar 40 milljónir punda fyrir hann.

Ziyech hefur verið í stóru hlutverki í liði Ajax en frá því hann kom til félagsins haustið 2016 hefur hann átt þátt í 89 mörkum í hollensku úrvalsdeildinni, skorað 38 sjálfur og átt 51 stoðsendingu. Þá var hann afar áberandi með liðinu í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili þegar liðið var hársbreidd frá því að komast í úrslitaleikinn.

mbl.is