Fær ekki að koma á æfingasvæði United

Odion Ighalo.
Odion Ighalo. AFP

Odion Ighalo, nígeríski knattspyrnumaðurinn sem Manchester United fékk lánaðan frá Shanghai Shenhua í Kína í lok janúar, hefur enn ekki fengið að koma á æfingasvæði félagsins, Carrington, af öryggisástæðum vegna COVID-19-veirunnar.

Ighalo fór ekki með United í æfingaferð til Marbella á Spáni þar sem forráðamenn United óttuðust að hann fengi ekki að koma aftur til Englands vegna hertra öryggisreglna vegna veirunnar, enda þótt leikmaðurinn hefði ekki komið frá aðalhættusvæðinu í Kína.

Daily Mirror skýrir frá því að Ighalo hafi á meðan hinir nýju liðsfélagar hans æfa í sólinni á Spáni æft með einkaþjálfara í líkamsræktarstöð í Manchester. Félagið hafi ákveðið að taka ekki nokkra einustu áhættu með að láta hann koma á Carrington, enda þótt líkurnar á að hann bæri með sér smit væru í algjöru lágmarki.

Ighalo fær þó að koma þangað þegar liðsfélagar hans mæta á svæðið um helgina en þá verður liðinn nægilega langur tími frá brottför hans frá Kína. Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri hefur sagt að Ighalo fari beint í leikmannahópinn fyrir leik liðsins gegn Chelsea í London á mánudagskvöldið.

mbl.is