Fengu íslenskan markvörð á neyðarláni

Patrik Sigurður Gunnarsson í leik með 21-árs landsliði Íslands í …
Patrik Sigurður Gunnarsson í leik með 21-árs landsliði Íslands í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Patrik Sigurður Gunnarsson, markvörður hjá Brentford í London og 21-árs landsliði Íslands, mun væntanlega verja mark Southend United gegn Burton Albion í ensku C-deildinni í knattspyrnu í dag.

Southend hefur fengið Patrik lánaðan frá Brentford en um svokallað neyðarlán er að ræða vegna markvarðavandræða sem upp komu vegna meiðsla aðalmarkvarðar liðsins.

Aðstoðarstjóri Southend er enginn annar en Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði og leikmaður margra enskra félaga um árabil, og knattspyrnustjóri félagsins er Sol Campbell sem  gerði garðinn frægan með Arsenal, Tottenham og enska landsliðinu.

Southend er í afar erfiðri stöðu, næstneðst í C-deildinni með aðeins þrjá sigra í 32 leikjum á tímabilinu, en þeir Campbell og Hermann tóku við því rétt eftir að tímabilið hófst í ágúst.

Patrik er 19 ára gamall og lék einn leik með Brentford í B-deildinni á síðasta tímabili en er annars markvörður varaliðs félagsins. Hann hefur leikið 21 leik með yngri landsliðum Íslands, sjö þeirra með 21-árs landsliðinu, og var í hópi A-landsliðsins í leikjunum gegn Kanada og El Salvador í janúarmánuði.

mbl.is