Þurfa að borga Liverpool metfé

Sadio Mané og Roberto Firmino eru algjörir lykilmenn í liði …
Sadio Mané og Roberto Firmino eru algjörir lykilmenn í liði Liverpool. AFP

Það verður að teljast ólíklegt að spænska knattspyrnufélagið Barcelona leggi fram tilboð í leikmenn Liverpool næsta sumar en frá þessu greina enskir fjölmiðlar. Þegar Barcelona keypti Philippe Coutinho af Liverpool í janúar 2018 fyrir 142 milljónir punda settu forráðamenn Liverpool inn klásúlu í kaupsamning spænska félagsins.

Klásúlan hljóðaði þannig að á næstu þremur árum þyrfti Barcelona að borga auka 100 milljónir evra eða 91 milljóna punda aukalega fyrir þá leikmenn sem félagið myndi kaupa af Liverpool. Ein af ástæðum þess að forráðamenn Liverpool settu inn þessa  klásúlu var sá að félagið hefur misst sterkar leikmenn til Börsunga á undanförnum árum.

Coutinho fór í janúar, Luis Suárez fór til félagsins árið 2014 og Javier Mascherano samdi við Börsunga árið 2010. Þetta voru allt lykilmenn í liði Liverpool, áður en þeir fóru til Spánar, og eru forráðamenn enska félagsins orðnir dauðþreyttir á því að missa sínu bestu leikmenn til spænsku risanna fyrir miðlungsupphæðir.

Barcelona borgaði 24 milljónir evra fyrir Mascherano og 80 milljónir evra fyrir Suárez. Þeir Sadio Mané, Roberto Firmino og Mohamed Salah hafa allir verið orðaðir við Barclona í gegnum tíðina. Mané, sem er metinn á um 150 milljónir evra í dag myndi því kosta Barcelona 250 milljónir evra næsta sumar.

Það myndi gera Mané að lang dýrasta knattspyrnumanni heims en brasilíski sóknarmaðurinn Neymar kostaði PSG 220 milljónir evra sumarið 2018. Það verður því að teljast afar ólíklegt að Barcelona muni leggja fram tilboð í stærstu stjörnur Liverpool á næstu tveimur árum í það minnsta.

mbl.is