Segir Kane vera á undan áætlun

José Mourinho klappar á bak Harry Kane eftir að sá …
José Mourinho klappar á bak Harry Kane eftir að sá síðarnefndi fór meiddur af velli á nýársdag. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Tottenham vonast eftir því að geta notað fyrirliðann og markaskorarann Harry Kane í nokkrum leikjum á lokaspretti ensku úrvalsdeildinnar.

Kane tognaði illa í læri um áramótin og gekkst í framhaldi af því undir uppskurð. Óttast var að hann myndi ekki spila meira á þessu tímabili og jafnvel missa af því að leika með enska landsliðinu í úrslitakeppni Evrópumótsins í sumar.

„Ég myndi segja að hann sé aðeins á undan áætlun og ég geri mér vonir um þrjá, fjóra til fimm leiki hjá honum í staðinn fyrir einn eða tvo leiki. Þetta eru vangaveltur en tilfinningin er góð. Hann gerir allt sem hann getur á þessu stigi og það gengur allt vel. Vonandi getur hann hjálpað okkur á lokasprettinum,“ sagði Mourinho.

Þá staðfesti Mourinho að Heung-min Son, sem einnig er frá vegna meiðsla næstu vikurnar, sé á leiðinni til Englands frá Seoul innan skamms. Kórónuveiran geisar nú í heimalandi hans, Suður-Kóreu, en Mourinho sagði að Son myndi fylgja öllum reglum og halda sig innandyra í hálfan mánuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert