Fékk Klopp til að fella tár

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkennir að hafa fellt tár þegar hann sá myndband af starfsmönnum á spítala syngja You’ll Never Walk Alone. Á myndbandinu má sjá starfsmenn syngja lagið, sem hefur verið einkennislag Liverpool síðan 1963.

„Í gær fékk ég sent myndband af fólki fyrir utan gjörgæslusvæðið syngja You’ll Never Walk Alone og ég fór að gráta um leið. Þetta er ótrúlegt og sýnir hversu magnað fólkið í heilbrigðisþjónustunni er,“ sagði Klopp við Daily Mail. Hann lætur sér ekki leiðast á meðan hann er fastur heima. 

„Ég er búinn að horfa á allar Taken-myndirnar og ég hef æft mig að dansa eins og Alex Oxlade-Chamberlain. Þetta er ekki eins slæmt og ég átti von á,“ sagði Klopp. Hann viðurkennir að það hafi verið erfitt að undirbúa liðið fyrir leik gegn Atlético Madríd í Meistaradeildinni 11. mars síðastliðinn. 

„Ég heyrði að það væri búið að loka skólum í Madríd og staðan þar væri erfið. Það var skrítið að undirbúa þann leik. Venjulega læt ég ekkert á mig fá, en í þessu tilviki var það mjög erfitt,“ sagði Þjóðverjinn. 

mbl.is