Klopp fannst glæpsamlegt að spila leikinn

Jür­gen Klopp
Jür­gen Klopp AFP

Jür­gen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, fannst það glæpsamlegt að leikurinn gegn Atlético Madríd í Meistaradeild Evrópu hafi verið spilaður þrátt fyrir að kórónuveiran hafi verið farin að breiða vel úr sér um alla Evrópu.

Leikurinn var spilaður fyrir troðfullum Anfield-leikvangi 11. mars en skömmu síðar var öllum fótbolta aflýst til að sporna við útbreiðslu veirunnar. Liverpool tapaði leiknum 3:2 en Klopp sást meðal annars skamma stuðningsmenn sem vildu taka í hendur leikmanna og þjálfara er þeir gengu inn á völlinn.

Carlo Ancelotti, stjóri nágrannanna í Everton, segist hafa rætt við kollega sinn hjá Liverpool sem var ekki ánægður með að leikurinn fór fram. „Ég talaði við Klopp fyrir nokkrum dögum, hann sagði mér að ákvörðunin um að spila leik Liverpool og Atlético hafi verið glæpsamleg og ég held að hann hafi rétt fyrir sér,“ sagði Ancelotti við ítalska miðilinn Corriere dello Sport.

Enska úrvalsdeildin gaf út tilkynningu í gærkvöldi þess efnis að leikir hefjist ekki aftur fyrr en í fyrsta lagi 30. apríl en Ancelotti segist ekki hugsa mikið um fótbolta þessa dagana.

„Við erum öll að lifa lífi sem við erum ekki vön og mun breyta okkur til frambúðar. Í dag er heilsan í forgangi, að stöðva veiruna. Hvenær fótboltinn byrjar aftur? Trúðu mér, það er það síðasta sem ég hugsa um.“

Carlo Ancelotti
Carlo Ancelotti AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert