Mest spennandi ungstirnið

Mason Mount hefur slegið í gegn í ensku úrvalsdeildinni á …
Mason Mount hefur slegið í gegn í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. AFP

Tim Cahill, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Everton, er mikill aðdáandi Mason Mount, sóknarmanns Chelsea. Mount hefur slegið í gegn á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni en hann er einungis 21 árs gamall. Þrátt fyrir það hefur hann skorað sex mörk og lagt upp önnur fimm í fjörutíu leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.

„Ég er mjög hrifinn af Mason Mount, sóknarmanni Chelsea,“ sagði Cahill í samtali við Sky Sports. „Hann er ekki bara frábær leikmaður, hann getur líka skorað mörk, og ég tel að ann eigi mjög bjarta framtíð fyrir sér. Maður sér það að þjálfarinn hans Frank Lampard hefur nú þegar sett sitt handbragð á leikmanninn.“

„Mount er hjá rétta þjálfaranum því Lampard hefur sýnt það og sannað að hann er óhræddur við að gefa ungum strákum tækifæri. Þeir þurfa tíma til þess að læra og gera sín mistök og Lampard er þannig manneskja að hann hefur mikla þolinmæði. Ég er mikill aðdáandi Mount og hlakka til að fylgjast með honum í framtíðinni,“ bætti Cahill við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert