Liverpool meistari, sama hvernig fer með tímabilið

Aleksander Ceferin segir útlokað annað en að útkljá tímabilin á …
Aleksander Ceferin segir útlokað annað en að útkljá tímabilin á einn hátt eða annan. AFP

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, segir að það sé útilokað annað en að Liverpool verði enskur meistari 2020, hvort sem hægt verði að ljúka tímabilinu á Englandi eða ekki.

Ceferin og UEFA hafa gefið út að það sé alfarið markmið sambandsins að allar deildakeppnir í Evrópu verði leiknar til enda, hversu lengi sem þurfi að bíða eftir því að það verði leikfært vegna kórónuveirunnar. 

Í viðtali sem birtist í dagblaðinu EkipaSN í Slóveníu, heimalandi forsetans, var hann enn ákveðnari í sínu máli varðandi lok tímabilsins á Englandi.

„Ég sé engar líkur á því að Liverpool verði ekki krýndur enskur meistari. Liðið er ekki búið að gulltryggja sér titilinn en það er nánast formsatriði. Ef svo færi að ekki væri hægt að ljúka keppni yrði samt nauðsynlegt að útkljá niðurstöðu tímabilsins á einhvern hátt og ákveða hverjir verða meistarar.

Og þar sé ég engan möguleika á öðru en að það yrði Liverpool. Ég skil vel að stuðningsfólkið yrði vonsvikið ef það myndi gerast fyrir tómum leikvangi, eða jafnvel við fundarborð, en ég tel að liðið verði meistari, hvernig sem þetta fer,“ sagði Ceferin.

mbl.is