Útiloka að tímabilinu verði aflýst

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar …
Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og er nánast öruggt með fyrsta Englandsmeistaratitilinn í 30 ár. AFP

Enska knattspyrnusambandið steig inn í fund félaga ensku úrvalsdeildarinnar í dag og útilokaði þann möguleika að tímabilinu verði aflýst. Verður það því annaðhvort leikið til enda eða núverandi staða látin gilda sem lokastaða. 

Þá munu þrjú lið falla eins og venjan er og Liverpool, sem er með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar, krýndur meistari, náist ekki að klára tímabilið. Ekki er enn komið í ljós hvar leikirnir fari fram, verði tímabilið leikið til enda. Ekki eru öll félögin sátt við þau áform að klára tímabilið á hlutlausum völlum. 

Munu forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar biðla til stjórnvalda um að leyfa félögum að leika á sínum heimavöllum, fyrir luktum dyrum. Eina leiðin fyrir Norwich, Aston Villa og Bournemouth til að sleppa við fall er að tímabilið verði klárað og þeim takist að komast upp úr fallsætum. 

Í stuttu máli verður tímabilinu ekki aflýst og ekki kemur til greina að hætt verði við fall úr deildinni. Þá vilja félögin leika þá leiki sem eftir eru á eigin heimavöllum, en ekki hlutlausum völlum. Hvort það er hægt á eftir að koma ljós. Þá munu samningar leikmanna sem renna út 30. júní verða framlengdir og geta leikmenn sem eru að renna út á samningi því væntanlega klárað tímabilið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert