Var rekinn of snemma

Wayne Rooney og Louis van Gaal á Wembley árið 2016.
Wayne Rooney og Louis van Gaal á Wembley árið 2016. AFP

Knattspyrnumaðurinn Wayne Rooney segir að Louis van Gaal hafi verið rekinn of fljótt frá Manchester United árið 2016 en Hollendingurinn hafði þá stýrt félaginu í tvö ár og unnið enska bikarinn.

United hafnaði í fjórða sæti eftir fyrsta tímabil van Gaal en tókst ekki að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu ár síðar. Hollendingurinn var í kjölfarið látinn fara þrátt fyrir að hafa stýrt liðinu til sigurs í ensku bikarkeppninni. United hefur aðeins einu sinni tekist að hafna í einum af fjórum efstu sætunum þau fjögur tímabil síðan Hollendingurinn var látinn fara.

„Ég var niðurbrotinn þegar Louis var rekinn, það var frábært að vinna með honum,“ skrifar Rooney í vikulegan pistil sinn í Sunday Mirror, en hann var gerður að fyrirliða United undir stjórn van Gaal.

„Við hefðum átt að halda honum út þriðja tímabilið, við hefðum verið miklu sterkara lið þannig. Ég fann hvernig við vorum að verða betri, leikmenn voru farnir að skilja hugmyndafræði hans. Hann kenndi mér meira en nokkur annar stjóri. Ég verð honum alltaf þakklátur.“

Van Gaal sjálfur hefur gagnrýnt forráðamenn United harðlega fyrir að hafa rekið hann of snemma en þar eru þó ekki allir á sama máli. Mark Og­d­en á ESPN seg­ir van Gaal aðeins geta kennt sjálf­um sér um enda­lok­in hjá United.

„Hann hef­ur alltaf verið mjög bit­ur yfir end­in­um hjá United. En það var vitað að hann yrði rek­inn því úr­slit­in voru ekki nægi­lega góð. Hann kenn­ir Woodw­ard um en hann get­ur aðeins sjálf­um sér um kennt.

Það eina sem Ed Woodw­ard gerði rangt var að leyfa van Gaal að kaupa leik­menn eins og Memp­his Depay, Bastian Schwein­steiger, Matteo Darmi­an, Marcos Rojo, Ang­el Di María og fleiri. Leik­manna­kaup­in hans voru hræðileg, fót­bolt­inn öm­ur­leg­ur og úr­slit­in slæm,“ sagði Og­d­en. 

mbl.is