Ekki á leiðinni til Liverpool

Leroy Sané er á förum frá Manchester City í sumar.
Leroy Sané er á förum frá Manchester City í sumar. AFP

Leroy Sané, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, hefur ekki áhuga á því að ganga til liðs við keppninautana í Liverpool en það er þýski miðillinn Bild sem greinir frá þessu. Enskir fjölmiðlar greindu frá því eftir áramót að Liverpool hefði áhuga á leikmanninum en það bendir ekkert til þess að hann sé á leiðinni á Anfield.

Sané hefur verið sterklega orðaður við brottför frá City í allan vetur en hann hefur lítið sem ekkert spilað á tímabilinu vegna hnémeiðsla sem hann varð fyrir í upphafi leiktíðar. Sané gekk til liðs við City frá þýska 1. deildarfélaginu Schalke sumarið 2016 og borgaði City tæplega 40 milljónir punda fyrir þjónustu þýska landsliðsmannsins.

Hann hefur tvívegis orðið Englandsmeistari með liðinu og einu sinni bikarmeistari og þá var hann kosinn besti ungi leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar, tímabilið 2017-18, en hann er orðinn 24 ára gamall. Roman Weidenfeller, fyrrverandi markvörður Borussia Dortmund greindi frá því í viðtali á dögunum að leikmaðurinn væri búinn að semja við Bayern München í Þýskalandi.

Sané verður samningslaus sumarið 2021 og getur þá farið frítt frá City en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning á Etihad-vellinum og því þarf City að selja hann í sumar, ef þeir vilja fá eitthvað fyrir leikmanninn.

mbl.is