Er með 100 mörk á heilanum

Djibril Cisse í búningi Liverpool.
Djibril Cisse í búningi Liverpool. AFP

Hinn 38 ára gamli Djibriil Cissé hyggst reima á sig knattspyrnuskóna á nýjan leik eftir að hafa lagt skóna á hilluna tvívegis. Fyrst árið 2015 er hann hætti 34 ára gamall vegna meiðsla og síðan árið 2018 þar sem hann var síðast á mála hjá Vicenza á Ítalíu. Ástæðan ku vera sú að hann vill ná að skora 100 mörk í efstu deild Frakklands. Sem stendur hefur Cissé skorað 96 mörk fyrir Auxerre, Marseille og Bastia.

„Ég þarf fjögur mörk og ég þarf að gera þetta áður en ég dey. Þetta er eitthvað sem ég hugsa aftur og aftur um og ég held að núna sé rétti tíminn að gera þetta,“ sagði Cissé í samtali við Sky Sports.

Cissé gerði garðinn frægan einna helst með Liverpool frá 2004 til 2007 þar sem hann skoraði 13 mörk í 49 leikjum og varð meðal annars Evrópumeistari eftir sigur liðsins á AC Milan í úrslitaleik árið 2005.

„Það segja allir, Djib, þú áttir frábæran feril og vannst marga titla en eins og þetta blasir við mér þá finnst mér eitthvað vanta, sagði Cissé sem verður 39 ára gamall í ágúst.

Spurður hvort hann sé tilbúinn að spila launalaust segir Cissé: „Já. Þetta er komið á það stig. Þetta snýst ekki um að græða peninga. Þetta er persónulegur draumur minn og eitthvað sem ég verð að gera til þess að vera 100% ánægður með ferilinn minn. Ég hef ekki fengið tilboð enn þá en ég held að það sé eðlilegt, segir Cissé.

mbl.is