Vonast til að halda honum hjá United

Odion Ighalo og Ole Gunnar Solskjær.
Odion Ighalo og Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, vonast til að framherjinn Odion Ighalo klári tímabilið í ensku úrvalsdeildinni með liðinu en hann er á lánssamningi frá Shenghai Shenhua frá Kína.

Nígeríumaðurinn á að snúa aftur til Kína á sunnudaginn, enda ætti tímabilinu á Englandi að vera lokið, en enn eru níu umferðir eftir vegna kórónuveirufaraldursins. Kínverska félagið er sagt vilja fá framherjann til baka, nema United sé tilbúið að kaupa hann á 20 milljónir punda.

„Lánssamningurinn var út maí þannig að auðvitað á hann að fara til baka, en við erum í viðræðum við félagið hans. Þeir hafa verið frábærir gagnvart okkur og leyfðu Ighalo að koma hingað og spila fyrir draumafélagið sitt,“ sagði Solskjær í viðtali við MUTV, sjónvarpsstöð félagsins.

„Vonandi getur hann verið áfram, klárað það sem hann byrjaði og unnið bikar með okkur. Sem stendur hefur þó ekkert verið ákveðið og kínverska deildin fer bráðum að byrja.“

mbl.is