Newcastle horfir til Liverpool

Xherdan Shaqiri hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Liverpool …
Xherdan Shaqiri hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Liverpool síðan hann kom til félagsins frá Stoke sumarið 2018. AFP

Enska knattspyrnufélagið Newcastle ætlar að styrkja sig þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í sumar. Krónprins Sádí-Arabíu, Mohammed bin Salman, er sagður vera að kaupa félagið af Mike Ashley en prinsinn er á meðal ríkustu manna heims og ætlar hann að gera félagið að stórveldi í Evrópu.

Sportsmail greinir frá því að Xherdan Shaqiri, sóknarmaður Liverpool, sé ofarlega á óskalista félagsins en hann hefur fengið fá tækifæri í byrjunarliði Liverpool frá því hann kom til félagsins frá Stoke, sumarið 2018. Svissneski landsliðsmaðurinn er 28 ára gamall en hann er sagður falur fyrir 16 milljónir punda.

Þá greinir spænski miðillinn Mundi Deportivo frá því að Newcastle horfi til Philippe Coutinho, fyrrverandi leikmanns Liverpool, en Coutinho lék með Liverpool á árunum 2013 til 2018. Coutinho var seldur til Barcelona í janúar 2018 fyrir 105 milljónir punda en Börsungar vilja losna við hann í dag og eru tilbúnir að láta hann fyrir 60 milljónir punda. 

mbl.is