Stjóri Leeds svipaður Guardiola

Pep Guardiola gefur bakverðinum Benjamin Mendy fyrirmæli í leik á …
Pep Guardiola gefur bakverðinum Benjamin Mendy fyrirmæli í leik á Old Trafford. AFP

Knattspyrnumaðurinn Benjamin Mendy lærði mikið af því að spila undir stjórn Marcelos Bielsa hjá Marseille í Frakklandi en hann telur dvölina þar hafa undirbúið sig fyrir að spila fyrir Pep Guardiola og Englandsmeistara Manchester City.

Vinstri bakvörðurinn spilaði fyrir Bielsa í heimalandinu tímabilið 2014/2015 en þeir eru síðan þá báðir komnir til Englands. Mendy gekk til liðs við City sumarið 2017 en argentínski þjálfarinn tók við stjórnartaumnum hjá B-deildarliði Leeds fyrir tveimur árum.

„Áður en ég fór til City hringdi ég í Bielsa og bað hann um ráðgjöf,“ sagði Mendy í viðtali við Sky Sports. „Hann sagði mér að fara og spila fyrir Guardiola.“

„Þeir eru svipaðir, þeir vilja spila svipaðan fótbolta. Pressa stíft, vera mikið með boltann. Pep fór til Barcelona, Bayern München og hefur þjálfað stærstu liðin og unnið stóra titla. Bielsa hefur unnið með aðeins minni liðum en hann gerir ekki síður góða hluti. Að spila fyrir Bielsa var frábært og hann hjálpaði mér mikið.“

Marcelo Bielsa.
Marcelo Bielsa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert