Vilja fjölga varamönnum á Englandi

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea.
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur lagt fram tillögu þess efnis við forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar að varamönnum verði fjölgað úr sjö í níu það sem eftir lifir leiktíðar en það er Sportsmail sem greinir frá þessu. Eins og staðan er í dag mega einungis sjö varamenn vera á bekknum hverju sinni.

FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, heimilaði það á dögunum að lið mættu skipta fimm mönnum af leikvelli í hverjum leik. Var þetta gert til þess að reyna að koma í veg fyrir meiðsli enda spilað ansi þétt þessa dagana þar sem flestar þjóðir vilja reyna að klára sín keppnistímabil áður en nýtt tímabil á að hefjast í ágúst eða september.

Englendingar stefna á að snúa aftur með úrvalsdeildina sína í kringum 17. júní en félögin eiga enn þá eftir að samþykkja þá tillögu að fjölga úr þremur skiptingum í fimm. Chelsea er í harðri baráttu um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu í úrvalsdeildinni en liðið er í fjórða sæti deildarinnar með 48 stig, 3 stigum meira en Manchester United sem er í fimmta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert