Skotmark Liverpool til Chelsea?

Timo Werner hefur skorað 25 mörk í þýsku 1. deildinni …
Timo Werner hefur skorað 25 mörk í þýsku 1. deildinni á tímabilinu. AFP

Timo Werner, framherji þýska knattspyrnufélagsins RB Leipzig, gæti gengið til liðs við Chelsea í sumar en það er ESPN sem greinir frá þessu. Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan vetur en Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, hefur lengi verið aðdáandi þýska framherjans sem er einungis 24 ára gamall.

Werner hefur raðað inn mörkunum í þýsku 1. deildinni á tímabilinu en hann hefur skorað 25 mörk í 29 leikjum í deildinni á tímabilinu. Þá skoraði hann fjögur mörk í átta leikjum í Meistaradeildinni á tímabilinu. Werner er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að fara frá Leipzig í sumar fyrir 52 milljónir punda.

Liverpool er ekki tilbúið að borga upp þessa klásúlu, meðal annars vegna efnahagsáhrifa eftir kórónuveirufaraldurinn, og greindu enskir fjölmiðlar frá því í síðustu viku að Liverpool hefði dregið sig út úr öllum viðræðum um leikmanninn. Það opnar því dyrnar fyrir Chelsea sem hefur einnig fylgst lengi með leikmanninum sem er fastamaður í þýska landsliðinu.

mbl.is