Missir af nágrannaslagnum í Liverpool

Mohamed Salah í baráttu við Yerry Mina í nágrannaslag Liverpool …
Mohamed Salah í baráttu við Yerry Mina í nágrannaslag Liverpool og Everton á síðustu leiktíð. AFP

Yerry Mina, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Everton, er að glíma við meiðsli í læri og  verður frá næstu vikurnar en það er The Times sem greinir frá þessu. Mina mun því missa af leik Everton og Liverpool sem mun að öllum líkindum fara fram helgina 20.-21. júní næstkomandi.

Enska úrvalsdeildin hefur verið í hléi síðan 9. mars vegna kórónuveirufaraldursins en stefnt er að því að hefja leik í deildinni að nýju 17. júní. Mina er 25 ára gamall en hann hefur byrjað 23 leiki Everton í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er leikmaður Everton en Everton er í tólfta sæti úrvalsdeildarinnar með 37 stig. Carlo Ancelotti tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í desember á síðasta ári eftir að Marco Silva var rekinn en Ancelotti ætlar sér að gera stórar breytingar á leikmannahópi liðsins í sumar.

mbl.is