Dansað og sungið í morgunmatnum

Jürgen Klopp ásamt Andy Robertson á góðri stundu.
Jürgen Klopp ásamt Andy Robertson á góðri stundu. AFP

Andy Robertson, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, setti inn skondna færslu á samfélagsmiðilinn Twitter í dag. Liverpool varð í gær Englandsmeistari í fyrsta sinn í þrjátíu ár eftir að Manchester City mistókst að vinna Chelsea á Stamford Bridge í London.

Frá því að leikur Chelsea og City var flautaður af hafa leikmenn Liverpool birt skemmtileg myndbönd á samfélagsmiðlum þar sem þeir eru í mikilli sigurvímu enda liðið óstöðvandi á tímabilinu.

Leikmennirnir horfðu saman á leikinn á hóteli í Liverpool-borg í gær og fögnuðu þar langt fram eftir nóttu. „Ég ætlaði bara í morgunmat,“ skrifaði Andy Robertson á Twitter og ýjaði þar að því að fagnaðarlætin stæðu enn yfir, hálfum sólarhring síðar.

mbl.is