Leikmenn City standa heiðursvörð fyrir Liverpool

Liverpool er Englandsmeistari 2020.
Liverpool er Englandsmeistari 2020. AFP

Manchester City og Liverpool mætast í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á fimmtudag í næstu viku. Þar sem Liverpool hefur þegar tryggt sér Englandsmeistaratitilinn munu lið venju samkvæmt standa heiðursvörð fyrir meistarana fyrir leiki. 

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir sitt lið munu standa heiðursvörðinn fyrir Liverpool, þrátt fyrir að Liverpool sé að taka meistaratitilinn af Manchesterliðinu. 

„Auðvitað munum við standa heiðursvörð, að sjálfsögðu,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi. „Liverpool hefði gert það sama fyrir okkur og þeir eiga skilið heiðursvörð,“ bætti Guardiola við. 

Er Liverpool orðið meistari þrátt fyrir að sjö umferðir séu eftir, en 23 stig skilja liðin að. 

mbl.is