Hélt upp á stóran áfanga með sigurmarki

Ben Mee fagnað af félögum sínum eftir að hann skoraði …
Ben Mee fagnað af félögum sínum eftir að hann skoraði fyrir Burnley á Selhurst Park í kvöld. AFP

Burnley lyfti sér upp í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld með góðum útisigri á Crystal Palace í London, 1:0.

Miðvörðurinn Ben Mee skoraði sigurmarkið á 62. mínútu og hélt með því upp á stóran áfanga en hann lék sinn 300. deildaleik fyrir félagið í kvöld.

Jóhann Berg Guðmundsson var ekki í leikmannahópi Burnley vegna meiðsla.

Burnley er komið með 45 stig og fór upp fyrir Palace, Arsenal og Sheffield United og í áttunda sætið, með jafnmörg stig og Tottenham sem er í sjöunda sæti.

Crystal Palace seig hins vegar niður í ellefta sætið með 42 stig.

mbl.is