Andrúmsloftið engu öðru líkt

Mohamed Salah hefur skorað sautján mörk í ensku úrvalsdeildinni á …
Mohamed Salah hefur skorað sautján mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP

Mohamed Salah, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, ætlar sér að vera áfram í herbúðum enska liðsins næstu árin en þetta staðfesti hann í samtali við BeIn Sports á dögunum. Salah gek til liðs við Liverpool frá Roma árið 2017 en Egyptinn, sem er orðinn 28 ára gamall, er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2023.

Hann var í lykilhlutverki með Liverpool á leiktíðinni þegar liðið vann sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í þrjátíu ár en hann hefur skorað 21 mark í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni á leiktíðinni. „Það er erfitt að lýsa eigin tilfinningum eftir að hafa loksins unnið ensku úrvalsdeildina eftir þrjátíu ára bið,“ sagði Salah.

„Ég er fyrst og fremst virkilega glaður og stoltur. Ég elska að spila fyrir Liverpool og andrúmsloftið hérna er engu öðru líkt. Ég vonast til þess að vera í herbúðum Liverpool næstu árin og vonandi mun ég skrifa undir langtímasamning við félagið í summar,“ bætti egypski sóknarmaðurinn við.

mbl.is