Félög eiga að horfa til Liverpool

José Mourinho hrósaði Liverpool í hástert á blaðamannafundi í gær.
José Mourinho hrósaði Liverpool í hástert á blaðamannafundi í gær. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, óskaði Liverpool til hamingju með Englandsmeistaratitilinn á blaðamannafundi í gær fyrir leik Sheffield United og Tottenham sem fram fer í Sheffield í dag. Þetta var fyrsti Englandsmeistaratitill félagsins í þrjátíu ár en Liverpool vann titilinn þegar sjö umferðir voru eftir af tímabilinu.

José Mourinho þekkir tilfinninguna vel að vinna ensku úrvalsdeildina en hann gerði það þrívegis með Chelsea, 2005, 2006 og 2015. Þá hefur hann unnið landstitil hvar sem hann hefur þjálfað en hann hefur meðal annars stýrt stórliðum á borð við Real Madrid, Inter Mílanó, Manchester United og Porto á sínum ferli.

„Ég vil nýta tækifærið og óska Liverpool til hamingju með Englandsmeistaratitilinn,“ sagði Mourinho. „Ég vil ekki bara óska leikmönnunum og þjálfarateyminu til hamingju heldur öllum sem starfa hjá og í kringum félagið og auðvitað stuðningsmönnum liðsins. Félagið hefur beðið ansi lengi eftir þessu og núna er tími fyrir alla til þess að njóta.

Tölurnar ljúga ekki og þeir eiga svo sannarlega skilið titilinn. Ég sagði það í nóvember, þegar að ég reyndi fyrir mér sem sparkspekingur, að þeir yrðu meistarar í ár. Það sem þeir hafa gert er eitthvað sem allir sem starfa í kringum fótboltann ættu að tileinka sér en það er að treysta knattspyrnustjóranum.

Ekki í eitt ár, tvö ár eða þrjú ár. Knattspyrnustjóri Liverpool fékk tíma til þess að búa eitthvað til og koma inn með sína hugmyndafræði. Eigendur félagsins hafa hins vegar alltaf staðið þétt við bakið á stjóranum, þrátt fyrir að hlutirnir hafi ekki alltaf gengið smurt fyrir sig, og þeir eru að uppskera núna,“ bætti Mourinho við.

mbl.is