Nýliðarnir fóru illa með Tottenham

Tottenham fékk skell gegn nýliðunum.
Tottenham fékk skell gegn nýliðunum. AFP

Sheffield United vann nokkuð óvæntan 3:1-sigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Komst Sheffield í 3:0, áður en Tottenham minnkaði muninn í lokin. 

Sander Berge skoraði fyrsta mark leiksins á 31. mínútu. Harry Kane kom boltanum í netið strax í næstu sókn en markið taldi ekki þar sem Lucas Moura fékk boltann í höndina í aðdragandanum. Leikmenn Tottenham voru allt annað en sáttir, þar sem brotið var á Moura er hann fékk boltann í sig. 

Markið stóð hinsvegar ekki og var staðan 1:0 í hálfleik. Sheffield-liðið tvöfaldaði forskotið á 69. mínútu er varamaðurinn Lys Mousset skoraði auðvelt mark eftir fyrirgjöf frá Enda Stevens. Vont varð verra fyrir Tottenham á 84. mínútu þegar Oliver McBurnie bætti við þriðja markinu. 

Harry Kane lagaði stöðuna á 90. mínútu og þar við sat. Sheffield er í sjöunda sæti deildarinnar með 47 stig og Tottenham í níunda sæti með 45 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert