Jóhann loksins í leikmannahópnum

Jóhann Berg Guðmundsson er loksins mættur aftur í leikmannahóp Burnley.
Jóhann Berg Guðmundsson er loksins mættur aftur í leikmannahóp Burnley. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í leikmannahópi Burnley sem fær Sheffield United í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni klukkan 11. 

Er íslenski landsliðsmaðurinn á meðal varamanna Burnley en hann er í fyrsta skipti í hópnum eftir að deildin fór af stað á ný eftir hlé. Hefur Jóhann verið mikið frá á tímabilinu vegna meiðsla. 

Hefur hann aðeins einu sinni náð að leika deildarleik frá upphafi til enda og aðeins náð að skora eitt mark. Náði hann áfanganum strax í fyrstu umferð gegn Southampton. 

Burnley er í tíunda sæti deildarinnar með 45 stig og Sheffield United í áttunda sæti með 47 stig. 

mbl.is