City skoraði fimm - Burnley í Evrópubaráttu - dramatík í Sheffield

Riyad Mahrez og Kevin De Bruyne fagna öðru marki Manchester …
Riyad Mahrez og Kevin De Bruyne fagna öðru marki Manchester City gegn Newcastle í dag en Mahrez skoraði eftir sendingu frá De Bruyne. AFP

Manchester City er langt komið með að tryggja sér annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir stórsigur á Newcastle í kvöld og Burnley er komið á fullri ferð í baráttuna um Evrópusæti.

Manchester City tók á móti Newcastle og vann afar sannfærandi sigur, 5:0. Gabriel Jesus og Riyad Mahrez skoruðu á fyrstu 20 mínútunum. Newcastle gerði sjálfsmark fljótlega í síðari hálfleik og David Silva, sem lagði upp fyrsta markið, skoraði það fjórða á 66. mínútu. Raheem Sterling innsiglaði sigurinn í uppbótartíma.

City er komið með 69 stig í öðru sætinu, níu stigum meira en Chelsea sem er í þriðja sæti. Newcastle er með 43 stig í tólfta sæti.

Burnley gerði góða ferð til London og vann þar West Ham 1:0 með marki frá Jay Rodriguez á 39. mínútu. Jóhann Berg Guðmundsson var á meðal varamanna Burnley en kom ekki við sögu. Burnley er með 49 stig og komið í níunda sæti deildarinnar en West Ham er áfram í 16. sætinu með 31 stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

John Egan tryggði Sheffield United dramatískan sigur á Wolves, 1:0, á þriðju mínútu í uppbótartíma en liðin eru í hörkuslag um Evrópusæti. Sheffield United fór þar með upp í 7. sæti með 51 stig, einu meira en Arsenal, en Wolves er áfram með 52 stig í 6. sæti.

Fylgst var með gangi mála í leikjunum:

Manchester City - Newcastle, staðan er 5:0

10. Gabriel Jesus kemur Manchester City í 1:0 með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá David Silva.
21. Riyad Mahrez bætir við marki fyrir City, 2:0, eftir sendingu frá Kevin De Bruyne. Átjánda stoðsending Belgans á tímabilinu og jöfnun á hans persónulega meti.
45. Staðan 2:0 fyrir City í hálfleik.
58. Sjálfsmark hjá Newcastle, Federico Fernández verður fyrir því óláni, 3:0.
66. David Silva bætir við marki fyrir City, staðan er orðin 4:0. Þetta er 150. markið sem Silva kemur að í deildinni en hann hefur nú skorað 59 mörk og átt 91 stoðsendingu.
90. Raheem Sterling skorar í uppbótartíma, 5:0 fyrir City.

Leikurinn er sýndur beint hér á mbl.is.

Sheffield United - Wolves, staðan er 1:0

45. Staðan er 0:0 í hálfleik.
90. John Egan skorar fyrir Sheffield United, 1:0, á þriðju mínútu í uppbótartíma!

West Ham - Burnley, staðan er 0:1

39. Jay Rodriguez skorar fyrir Burnley, 0:1, með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf frá  Taylor.
45. Staðan er 0:1 í hálfleik.

Jóhann Berg Guðmundsson er á meðal varamanna Burnley í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert