Jón Daði á leið í úrvalsdeildina?

Jón Daði Böðvarsson er í toppbaráttu með Millwall.
Jón Daði Böðvarsson er í toppbaráttu með Millwall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Daði Böðvarsson og félagar í Millwall eru enn með í baráttunni um sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir sigur á Blackburn, 1:0, á heimavelli sínum The New Den í London í kvöld.

Mason Bennett skoraði sigurmarkið á 20. mínútu en Jón Daði, sem hefur misst af nokkrum síðustu leikjum Millwall, kom inn á sem varamaður á 69. mínútu.

Millwall er í sjöunda sæti, tveimur stigum á eftir Cardiff og fjórum á eftir Nottingham Forest þegar tvær umferðir eru eftir en þessi lið eru ásamt Swansea og Preston í baráttu um tvö sæti í umspilinu.

WBA og Fulham, tvö af efstu liðunum,  gerðu 0:0 jafntefli sem þýðir að Leeds er áfram efst með 84 stig og á leik til góða á WBA sem er með 82. Brentford er með 78 stig og Fulham 77 en tvö af þessum liðum fara beint upp og hin tvö í umspil.

Wigan vann ótrúlegan 8:0 sigur á Hull City og staðan þar var 7:0 í hálfleik. Hull datt þar með niður í fallsæti þar sem liðið situr nú ásamt Luton og Barnsley fyrir lokaumferðirnar. en Charlton, Huddersfield, Birmingham, Stoke og Middlesbrough eru líka öll í fallhættu. Þá á Wigan á hættu að 12 stig verði dregin af liðinu en þá væri liðið aðeins ofan við fallsæti á markatölu.

mbl.is