Þeir efnilegustu til sölu

Max Aarons er einn þeirra leikmanna sem er falur fyrir …
Max Aarons er einn þeirra leikmanna sem er falur fyrir rétta upphæð. AFP

Stuart Webber, yfirmaður íþróttamála hjá Norwich, segir að félögum sé frjálst að leggja fram tilboð í leikmenn liðsins en Norwich féll úr ensku úrvalsdeildinni um helgina eftir 4:0-tap gegn West Ham á heimavelli. Norwich Evening News greinir frá því að leikmenn liðsins séu falir fyrir um 20 milljónir punda en félagið er í fjárhagserfiðleikum vegna kórónuveirufaraldursins.

Norwich var nýliði í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en liðið vann aðeins fimm leiki og er með 21 stig í neðsta sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu. Leikmenn á borð við Todd Cantwell, Max Aarons og Jamal Lewis hafa allir slegið í gegn með botnliðinu á tímabilinu.

Cantwell hefur skorað sex mörk og lagt upp tvö mörk í 34 deildarleikjum og þá hefur varnarmaðurinn Jamal Lewis skorað eitt mark og tvívegis haldið hreinu. Max Aarons hefur fimm sinnum tekist að halda markinu hreinu í 33 deildarleikjum en þeir kosta allir 20 milljónir punda og hafa verið orðaðir við stærri lið deildarinnar.

mbl.is