Vilja stjörnu United til Frakklands

Marcus Rashford.
Marcus Rashford. AFP

Knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford, ein skærasta stjarna Manchester United, er efstur á óskalista franska stórliðsins PSG í sumar samkvæmt ensku götublöðunum.

Forráðamenn PSG vilja fjölhæfan sóknarmann til að spila með þeim Kylian Mbappé og Neymar í framlínunni en Rashford hefur verið einn besti leikmaður Manchester-liðsins undanfarin ár, bæði sem kantmaður og framherji.

Rashford, 22 ára, er uppalinn í Manchester og hefur skorað 43 deildarmörk í 139 leikjum fyrir United og ekki sagður sérlega áhugasamur um að færa sig um set. The Mirror og Independent segja hins vegar að PSG ætli ekki að láta það stöðva sig og að félagið muni bjóða Englendingnum unga gull og græna skóga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert