Banna löglegu leiðina til að horfa á enska boltann

Það er ekki hægt að horfa á enska boltann löglega …
Það er ekki hægt að horfa á enska boltann löglega í Sádi-Arabíu. AFP

Konungsríkið Sádi-Arabía hefur bannað katörsku sjónvarpsstöðina beIN Sports í landinu. Er það gert í kjölfar þess að sjónvarpsstöðin krafðist þess að enska úrvalsdeildin kæmi í veg fyrir kaup konungsfjölskyldu Sádi-Arabíu á enska knattspyrnufélaginu Newcastle. 

Sjónvarpsstöðin beIN Sports er með réttinn á enska boltanum í Mið-Austurlöndum en Arabsat hefur streymt efni tengdu ensku knattspyrnunni ólöglega frá árinu 2017. Með banni beIN Sports í Sádi-Arabíu er engin lögleg leið til að horfa á enska boltann í landinu. 

Yfirmenn ensku úrvalsdeildarinnar eiga enn eftir að taka ákvörðun um hvort konungsfjölskyldan fái að festa kaup á Newcastle, en Amnesty International er á meðal samtaka sem hafa hvatt til þess að kaupin fái ekki að ganga í gegn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert