Bournemouth íhugar skaðabótamál

Atvikið ótrúlega sem dregur enn dilk á eftir sér.
Atvikið ótrúlega sem dregur enn dilk á eftir sér. AFP

Forráðamenn Bournemouth munu hittast í vikunni til að ræða möguleikann á að höfða skaðabótamál á hendur Hawk-Eye, fyrirtækinu sem annast marklínutæknina í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Bournemouth féll úr deildinni í fyrradag en liðið var einu stigi frá Aston Villa sem bjargaði sér á lokadeginum. Í kjölfarið voru menn fljótir að rifja upp leik Villa gegn Sheffield United í síðasta mánuði þar sem marklínutæknin brást.

Örjan Ny­land, markvörður Aston Villa, handsamaði þá knöttinn en datt svo með hann inn í markið. Endursýningar á atvikinu sýndu að boltinn fór bersýnilega inn fyrir línuna en marklínutæknin brást illilega og Michael Oliver, dómari leiksins, fékk ekki neina ábendingu um að mark hefði verið skorað.

Forráðamenn Hawk-Eye brugðust hratt við og báðust formlega afsökunar á mistökunum en leiknum lauk með markalausu jafntefli. Hefði markið staðið og Villa í kjölfarið tapað leiknum, er ljóst að liðið hefði fallið á markatölu og Bournemouth hefði bjargað sér.

mbl.is