Lykilmenn snúa aftur fyrir úrslitaleikinn

N'Golo Kanté virðist vera klár í slaginn.
N'Golo Kanté virðist vera klár í slaginn. AFP

Stuðningsmenn Chelsea hafa fengið góðar fréttir fyrir úrslitaleikinn í ensku bikarkeppninni á morgun en tveir lykilmenn liðsins eru klárir í slaginn eftir að hafa glímt við meiðsli undanfarnar vikur.

Um er að ræða þá N'Golo Kanté, sem hefur ekki spilað síðan 4. júlí, og Willian sem missti af síðasta leik. Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að þeir verði báðir í leikmannahópi liðsins en hann ræddi við fjölmiðla á blaðamannafundi sínum í dag.

„N'Golo Kanté og Willian verða í hópnum og svo sjáum við til hvort þeir verða tilbúnir í að byrja,“ sagði Lampard við blaðamenn en hann stefnir nú á sinn fyrsta titil sem stjóri eftir að hafa tekið við liði Chelsea síðasta sumar.

„Bikarúrslitaleikur er frábær upplifun, sérstaklega fyrir unga leikmenn, en þetta hefur fyrst og fremst áhrif á okkur ef við vinnum,“ sagði Lampard sem var einn sigursælasti leikmaður Chelsea á sínum tíma.

Willian.
Willian. AFP
mbl.is