Megum ekki leyfa þessa yfirburði Liverpool

Leikmenn Liverpool fagna Englandsmeistaratitlinum.
Leikmenn Liverpool fagna Englandsmeistaratitlinum. AFP

Knattspyrnumaðurinn Nemanja Matic segir að Manchester United verði að binda enda á sigurgöngu Liverpool og ekki leyfa erkifjendum sínum að drottna yfir enska fótboltanum en liðið varð Englandsmeistari með miklum yfirburðum í ár.

Miðjumaðurinn er orðinn 32 ára og gekk til liðs við United fyrir þremur árum en félagið hefur ekki fagnað meistaratitlinum síðan 2013, eða síðan Sir Alex Ferguson var við stjórnvölinn.

Rauðu djöflarnir enduðu nýliðið tímabil í þriðja sæti eftir að þeim tókst að vera ósigraðir í síðustu 14 leikjum sínum en engu að síður voru þeir heilum 33 stigum frá meistaraliði Liverpool. Serbinn segir liðið þurfa að gera betur á næstu leiktíð.

„Persónulega vil ég verða enskur meistari með Manchester United, þetta félag þarf að berjast um titilinn,“ sagði Matic í viðtali við Inside United. „Við getum ekki leyft öðru liði að vinna deildina þegar það eru tíu leikir eftir af mótinu. Við þurfum að berjast til enda.“

Nemanja Matic.
Nemanja Matic. AFP
mbl.is