Enskir landsliðsmenn brutu íslenskar sóttvarnareglur

Mason Greenwood fylgist með Alberti Guðmundssyni taka á móti boltanum …
Mason Greenwood fylgist með Alberti Guðmundssyni taka á móti boltanum á Laugardalsvelli á laugardaginn síðasta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir leikmenn enska landsliðsins í knattspyrnu gerðust sekir um brot á íslenskum sóttvarnareglum í gær en það er vefmiðillinn 433.is sem greinir frá þessu.

Mason Greenwood, leikmaður Manchester United, og Phil Foden, leikmaður Manchester City, komu báðir við sögu 1:0-sigri Englands gegn Íslandi á Laugardalsvelli í Þjóðadeild UEFA á laugardaginn síðasta en þeir fengu heimsókn frá tveimur íslenskum stúlkum á hótelherbergi sitt í gærkvöldi.

Enska landsliðið er í svokallaðri vinnusóttkví hér á landi þar sem leikmenn mega einungis æfa og keppa. Þeir mega ekki hitta aðra utan enska landsliðshópsins, ekki einu sinni fjölskyldu sína eða vini, og því um klárt brot á sóttvarnareglum að ræða hjá leikmönnunum tveimur.

„Við höfðum ekki hugmynd um þessar reglur, þeir sögðu aldrei að við mættum ekki taka myndir. Við erum búnar að senda þeim og láta vita en þeir hafa ekki opnað það,“ sagði önnur stúlkan í samtali við blaðamann 433.is.

Við viljum ekki ræða þetta, við viljum ekki koma þeim í klípu,“ bætti önnur stúlkan við í samtali við 433.is.

Enska landsliðið heldur til Danmerkur síðar í dag þar sem liðið mætir Dönum á Parken í Þjóðadeildinni á morgun en liðið hefur dvalið hér á landi frá því á föstudaginn síðasta.

Ekki er ljóst hvort einhver eftirmál verða af atvikinu en báðir leikmenn eru að stíga sín fyrstu skref með enska landsliðinu.

Umfjöllun 433.is um málið má lesa með því að smella hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert