Vardy jafnaði met Hollendingsins

Jamie Vardy skorar úr seinni vítaspyrnunni gegn WBA í gær.
Jamie Vardy skorar úr seinni vítaspyrnunni gegn WBA í gær. AFP

Jamie Vardy jafnaði met í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar hann skoraði fyrir Leicester í sigrinum á WBA í fyrstu umferð deildarinnar í gær.

Vardy gerði tvö marka Leicester í 3:0 útisigri, bæði úr vítaspyrnum. Hann hefur þar með skorað í öllum fimm útileikjum sem hann hefur spilað gegn WBA í úrvalsdeildinni og það hefur aðeins einn annar  gert síðan deildin var stofnuð árið 1992.

Ruud van Nistelrooy, hollenski markaskorarinn, var þar á ferð en hann skoraði í öllum fimm útileikjunum sem hann spilaði með Manchester United gegn Newcastle.

Þá jafnaði Leicester met í deildinni með sigrinum en liðið hefur unnið WBA í öllum fimm heimsóknum sínum þangað. Það hafa áður þrjú önnur lið gert í útileikjum, Manchester City gegn Bournemouth, Arsenal gegn Hull og Sheffield Wednesday gegn Ipswich.

mbl.is