Góð byrjun Villa og nýi markmaðurinn sló í gegn

Ezri Konsa fagnar sigurmarkinu.
Ezri Konsa fagnar sigurmarkinu. AFP

Aston Villa hóf tímabilið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sigri gegn Sheffield United, 1:0, á Villa Park í Birmingham í dag.

Sheffield United varð fyrir áfalli strax á 12. mínútu þegar miðvörðurinn John Egan var rekinn af velli.

Emiliano Martínez, argentínski markvörðurinn sem Villa keypti af Arsenal á dögunum, sló í gegn í fyrsta leik því hann varði vítaspyrnu frá John Lundstram á 36. mínútu.

Það var síðan Ezri Konsa sem skoraði sigurmarkið á 63. mínútu með skalla eftir hornspyrnu og skallasendingu frá Tyrone Mings, sem einmitt skrifaði fyrr í dag undir nýjan samning við Villa til þriggja ára.

Villa er því með þrjú stig eftir sinn fyrsta leik en Sheffield United hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum og ekki skorað mark.

Emiliano Martinez varði vítaspyrnu.
Emiliano Martinez varði vítaspyrnu. AFP
mbl.is