Kynntur til leiks hjá Chelsea á morgun

Frank Lampard hefur fengið sex nýja leikmenn á Stamford Bridge …
Frank Lampard hefur fengið sex nýja leikmenn á Stamford Bridge í sumar. AFP

Markvörðurinn Edouard Mendy verður kynntur til leiks hjá enska knattspyrnufélaginu Chelsea á morgun en þetta staðfesti Frank Lampard, stjóri Chelsea, eftir 6:0-sigur liðsins gegn Barnsley í 3. umferð enska deildabikarsins í kvöld.

Mendy er 28 +ara gamall en honum er ætlað að berjast um markvarðastöðuna við Kepa Arrizabalaga hjá félaginu en sá spænski hefur verið harðlega gagnrýndur að undanförnu.

Mendy kostar í kringum 18 milljónir punda en hann kemur til félagsins frá franska 1. deildarfélaginu Rennes þar sem hann lék á síðasta keppnistímabili.

Markvörðurinn verður sjöundi leikmaðurinn sem kemur til félagsins í sumar á eftir þeim Thiago Silva, Malang Sarr, Hakim Ziyech, Ben Chilwell, Timo Werner og Kai Havertz.

mbl.is