Arsenal ekki nálægt

Houssem Aouar er eftirsóttur.
Houssem Aouar er eftirsóttur. AFP

Arsenal er ekki nálægt því að klófesta franska miðjumanninn Houssem Aouar frá Lyon en Lundúnaliðið bauð um 30 milljónir punda í leikmanninn á dögunum.

Aouar er 22 ára og hefur alla tíð leikið með Lyon í heimalandinu en hann þykir einn besti ungi leikmaður Evrópu, hefur skorað 16 mörk í 99 leikjum fyrir franska liðið. Forseti félagsins, Jean-Michel Aulas, tjáði sig um áhuga Arsenal á leikmanninum á Twitter.

„Arsenal er langt frá því að bjóða það sem við teljum rétt verð fyrir hann. Við treystum á að hann verði leiðtogi hjá Lyon og hjálpi okkur að komast í Meistaradeildina að ári,“ sagði Aulas og virðist ólíklegt að leikmaðurinn sé á förum.

mbl.is