Er hin dökka list Fergusons glötuð hjá United?

Alex Ferguson fylgist grannt með hjá Manchester United en kemur …
Alex Ferguson fylgist grannt með hjá Manchester United en kemur ekki lengur að leikmannakaupum félagsins eins og hann gerði í 27 ár sem knattspyrnustjóri. AFP

Manchester United hefur týnt niður hæfileikanum til að fremja hina „dökku list leikmannakaupa,“ og stuðningsmenn félagsins fá misvísandi skilaboð um fjárhagslega stöðu félagsins.

Þetta segir knattspyrnublaðamaðurinn Andy Mitten sem er jafnframt ritstjóri „United We Stand,“ tímarits stuðningsfólks Manchester United.

„Stuðningsfólk United hefur ekki mikla trú á innkaupastefnu félagsins og telur að um misvísandi skilaboð hafi verið að ræða,“ sagði Mitten við Sky Sports.

„Fyrrverandi leikmaður liðsins  sagði við mig í vikunni - goðsögn í sögu félagsins - að félagið hefði týnt niður hæfileikanum til að fremja hina „dökku list leikmannakaupa,“ og hann útskýrði það fyrir mér.

Ef Sir Alex Ferguson vildi krækja í leikmann, þá vissi umræddur leikmaður að Ferguson vildi fá hann, vissi hvernig hann myndi spila og var þegar orðinn heillaður. Hann færi þá til umboðsmanns síns og segðist vilja vera seldur.

Það er mjög erfitt fyrir félag að reyna að semja við leikmann þegar það veit að hann vill fara og spila með Manchester United. Þessi leikmaður taldi að þessi dökka list hefði tapast og þið sjáið hvernig málin standa. United er orðað við fullt af leikmönnum, og hefur enga stjórn á því hvernig umboðsmenn orða þá við félagið. Þetta er mjög þreytandi fyrir stuðningsfólkið sem fær algjörlega misvísandi skilaboð og hefur enn aðeins séð einn leikmann keyptan í sumar,“ sagði Andy Mitten.

Alex Ferguson var knattspyrnustjóri Manchester United frá 1986 til 2013 en liðið var þrettán sinnum enskur meistari og tvisvar Evrópumeistari undir hans stjórn.

mbl.is