Lykilmenn Liverpool tæpir vegna meiðsla

Jordan Henderson fór meiddur af velli í hálfleik gegn Chelsea …
Jordan Henderson fór meiddur af velli í hálfleik gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á dögunum. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er áfram á meiðslalista félagsins en þetta staðfesti Pepijn Lijnders, aðstoðarþjálfari liðsins, á blaðamannafundi félagsins í morgun.

Liverpool mætir Arsenal í sextán liða úrslitum enska deildabikarsins á Anfield í Liverpool á morgun en gera má ráð fyrir því að Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, stilli upp hálfgerðu varaliði í leiknum.

Henderson er meiddur og hefur misst af síðustu tveimur leikjum liðsins. Þá er hann tæpur fyrir leik Aston Villa og Liverpool í Birmingham á sunnudaginn næsta.

Joel Matip er að glíma við vöðvameiðsli og þá er Grikkinn Kostas Tsimikas einnig á meiðslalistanum eftir að hafa meiðst gegn Lincoln í deildabikarnum á dögunum.

Alex Oxlade-Chamberlain er svo að glíma við meiðsli í hné og verður ekki klár í leikinn á morgun né gegn Aston Villa á sunnudaginn kemur.

mbl.is