Vissi að Klopp yrði góður en ekki svona góður (myndskeið)

Everton tekur á móti Liverpool í nágrannaslag ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á laugardaginn kemur klukkan 11:30.

Everton er með fullt hús stiga eða 12 stig eftir fyrstu fjóra leiki sína í efsta sæti deildarinnar en Liverpool er með níu stig í fimmta sætinu.

Jürgen Klopp tók við stjórnartaumunum hjá Liverpool í október 2015 og hefur síðan þá stýrt liðinu til sigurs í Meistaradeild Evrópu, heimsmeistarakeppni félagsliða og nú síðast ensku úrvalsdeildinni.

„Ég fylgdist vel með honum hjá Dortmund og maður vissi því aðeins á hverju maður átti von þegar hann tók við Liverpool,“ sagði Nigel Martyn um Klopp.

„Ég vissi að hann yrði góður en ég átti ekki von á því að hann yrði svona góður.

Allison og Van Dijk voru púslin sem vantaði og eftir að þeir komu til félagsins fór allt í gang,“ bætti Martyn við.

Leikur Everton og Liverpool verður sýndur beint á Síminn Sport.

mbl.is