Fékk smitaðan vin í heimsókn og missir af þremur leikjum

Wayne Rooney leikur með Derby í ensku B-deildinni og er …
Wayne Rooney leikur með Derby í ensku B-deildinni og er jafnframt aðstoðarstjóri liðsins. AFP

Wayne Rooney, leikmaður og aðstoðarstjóri enska knattspyrnuliðsins Derby County og fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands, er kominn í tíu daga sóttkví eftir að hafa fengið heimsókn frá vini sínum sem reyndist vera smitaður af kórónuveirunni.

Maðurinn, sem hefur verið nafngreindur sem þekktur viðskiptajöfur, Josh Bardsley, kom í heimsókn til Rooneys síðasta fimmtudag, daginn fyrir leik Derby gegn Watford í ensku B-deildinni. Rooney spilaði leikinn, grunlaus um mögulegt smit, en frétti síðan að Bardsley hefði verið smitaður.

Bæði liðin voru sett í sóttkví í kjölfarið en Rooney hefur nú fengið niðurstöðu úr skimun og greint frá því að hann reyndist neikvæður. Hann þarf eftir sem áður að halda sig fjarri liðsfélögum sínum í tíu daga og missir af þremur leikjum fyrir vikið.

 Svo vill til að í dag eru nákvæmlega 18 ár síðan 17 ára gamall Wayne Rooney sló í gegn með glæsilegu marki fyrir Everton gegn Arsenal og það má sjá hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert